Endalaus kortagerð í gangi 😀
Ef þið hafið eitthvað verið að fylgjast með þá var ég búin að sýna myndir sem ég gerði í FabLab, þar sem laser prentari „rasteraði“ mynd af stráknum mínum á pappa og pappír. Ég kíkti svo í A4 og fann fallegan pappír, og gulldúllur í Mega store.
Ég skar rauða pappírinn þannig hann kæmist ofan í umslögin sem ég gerði í Fab Lab. (Ég var búin að „rastera“ nöfnin framan á umslögin). Það sést kannski ekki nógu vel, en þessi rauði pappír er afskaplega fallegur og jólalegur, það er svona gullglimmer í honum svo hann glansar 🙂
Til að fá pappírinn í rétta stærð braut ég a4 blað langsum til helminga og skar það svo þvert í gegn í miðju. Þá var ég komin með tvö kort úr einu blaði.
Ég raðaði þessu svo saman eins og mér fannst fallegast og ákvað að gera þau öll alveg eins því mér fannst þau koma svo vel út 🙂
Ég átti til 3 myndir á blaði síðan ég gerði kortin sem ég sýndi um daginn (þá var myndin sett innan í kortin, og öll kortin voru misjöfn en í svipuðum stíl). Þessar á blaðinu eru stærri en þær sem ég „rasteraði“ á pappann svo þær komu öðruvísi út.
Ég er að bíða eftir stimpilpúðum frá Stamp in up og á því eftir að stimpla jólakveðju inn í kortin. Ég stimplaði framan á eitt kort eins og sést en púðinn sem ég á er ekki nógu góður og kemur ekki nógu skýrt framm.
Gleðilegan Desember :*