Ég keypti skrautgreinar og gerði nokkrar jólaskreytingar í gær eftir að börnin voru sofnuð. Aðventuskreytingin sem er mjög einföld þetta árið samstendur af nokkrum greinum, merkt aðventukerti, könglar og sveppir á löngum bakka.
Ég hafði svo keypt járnhring sem ég var búin að bíða með að skreyta þar til ég væri komin með greinarnar. Ég hef aldrei gert svona skreytingu áður og fannst bara vel til takast þó svo ég segi sjálf frá. Ég notaði blómavír til þess að festa greinarnar og fannst svo eitthvað vanta í miðjuna. Ég lét því rautt jólaskraut þar sem greinarnar mætast í miðjunni og hengdi kransinn svo út í stofuglugga.
Afgangs greinarnar lét í tvenna blómavasa. Það voru einnig nokkrar mjög smáar greinar og afklippur sem ég tók til hliðar og ætla að setja á jólapakkana.
Ég var með smá aðventukaffi í dag en við tókum forskot á sæluna í gærkvöldi og smökkuðum súkkulaðibúðinginn sem ég bauð upp á. Hann var mjög ljúfengur og mæli ég hiklaust með honum, ég fann uppskriftina á síðunni hennar Evu Laufey. Ég held sveimér þá að þetta verði jólaeftirrétturinn í ár! Venjan er að gera jólaís, en maðurinn minn er ekki fyrir svona mikið rjómabragð, hann var sammála mér að búðingur væri málið.
Ég sá Evu Laufey töfra fram mjög fallega köku um daginn sem var eiginlega ástæða þess að ég varð að bjóða í Aðventukaffi, svo ég hefði afsökun til þess að gera hana. Þetta er að sjálfsögðu Piparkökukakan, en jólalegri verður hún ekki! Búðingurinn passaði líka einstaklega vel með. Ég ætla að enda þessa færslu á nokkrum myndum af kökunni góðu;
Kisses :*