Kvíða-skjálfti

Gærdagurinn var frekar áhrifamikill. Ég stóð uppi í risi á móti tölvunni minni og var að undirbúa mig fyrir lokapróf í framsögn. Æfa hæðina á skjánum og tala við myndavél. Allt í einu fór allt húsið að hristast og ég sjálf riðaði til. Ég hélt að húsið væri að hrynja, einhver að sprengja undir því eða bora með svakalegum höggbor. Ég áttaði mig þó fljótt á að þetta var jarðskjálfti og hef ég aldrei upplifað svona kraftmikinn skjálfta áður. Einu sinni hefur mér fundist húsið „hoppa“ en það varði svo stutt, á meðan skjálftinn í gær virtist taka óratíma. Það hefði verið gaman að eiga viðbrögðin á upptöku en þar sem mér brá svo svakalega náði ég ekki að vista upptökuna sem ég var að vinna að.

Ég var smá eftir mig yfir daginn, svona eins og pínu kvíðabylgjur í líkamanum. Það sem eftir var dags lét ég skólatengd verkefni vera. Fyrr um morguninn hafði ég einnig fengið smá kvíðakast eftir flutning á glærum í framsögn, þar sem ég fór að ofhugsa og rangtúlka flutninginn á meðan tíminn var enn í gangi. Í stað þess að ræða við kennarann dró ég mig til hlés og upplifði tímann ömurlega eftir á, sem hafði þó byrjað mjög vel og skemmtilega. Ég tel einnig að zoom fyrirkomulagið hafi ekki hjálpað þar sem ég gat ekki leitað beint til kennarans og enginn gat skynjað að eitthvað væri að.

Þar sem ég hef þurft að vinna með kvíða og farið í gegnum huglæga atferlismeðferð, gat ég ávarpað kvíðann og greint að eitthvað væri ekki eins og það ætti að vera. Ég fór að skoða hugsanir mínar, af hverju líðan mín breyttist skyndilega og af hverju ég fór að taka allt inn á mig sem gerðist í tímanum eftir að hafa lokið máli mínu. Ég sendi kennaranum skilaboð, en það er einnig þáttur í að takast á við kvíðann, ræða strax við aðilann sem var tengdur aðstæðunum. Kennarinn fullvissaði mig um að verkefnið mitt hafi verið vel unnið og ég komið máli mínu skýrt fram, enginn setti út á það sem ég hafði gert og flestir hrósað útlitinu á glærunum mínum. Hún baðst einnig afsökunar ef það var eitthvað á hennar hlut sem mér fannst fallegt af henni. Ég vona að hún erfi þetta ekki við mig, en það er líka kannski bara kvíðatal í mér að halda það.

Kvíðinn getur verið svo lúmskur og komið aftan að manni. Mér fannst ég vera búin að tækla hann ágætlega, byrjaði á vægum lyfjum áður en skólinn hófst til þess að halda mér í jafnvægi. Ég hef unnið vel að öllum verkefnum tengdum skólanum og fundist ég bara vera að standa mig vel og ráða vel við allt saman. Þar sem ég þekki mig tók ég þá ákvörðun að vera í 100% skóla á námslánum svo ég þurfi ekki að hafa vinnuálag ofan á allt annað. Ég er samt frekar atorkumikil og vinn hratt, svo ég sótti einnig um í Stúdentablaðinu og hefur gengið vel þar, einnig er ég formaður foreldrafélagsins í skólanum hans Leós og haldið ágætlega utan um það, þó svo ástandið í samfélaginu hafi ekki leyft okkur að gera mikið.

Birt af gigi

Skapandi fiðrildi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: