Þegar ég var barn var hefð hjá okkur pabba að kíkja til ómí (ömmu) í sunnudagsmat þegar ég var hjá honum aðra hverja helgi, hann hélt í þessa hefð alla sunnudaga þar til hún lést og ég fór eins oft og ég komst. Lyktin af grænmeti minnir mig mikið á hana því hún var alltaf með eitthvað grænmeti með eða í matnum. Ég fylgdist mikið með henni og tók til mín ýmislegt úr eldamennskunni hennar. Hún var frá Þýskalandi og var því oft með öðruvísi mat en þennan hefðbundna mat sem íslendingar ólust flestir upp við. Ég skrifaði hjá mér uppskrift af „pie“ eða hnoðuðu deigi sem hún notaði bæði í mat og eftirrétti. Eini munurinn á milli er sykurinn.
Böku af þessu tagi sem er hér að neðan gerði ómí oft, hún notaði reyndar einnig beikon og pylsubita en ég geri hana iðulega bara með grænmeti. Það má í raun setja það grænmeti sem maður kýs og eftir því sem er til í ísskápnum.

Listi af því sem ég nota yfirleitt:
- Blómkál
- Gulrætur
- Sæta kartöflu
- Rauðlauk / Blaðlauk
- Papriku
- Spínat
Eggjahræra:
- Ca 4 egg
- Krydd td. hvítlauks, salt og pipar
- Basilika / Steinselja (skorin smátt)
- 1dl Rifinn ostur
- lítil dós kotasæla (má sleppa)
Bökubotn (Pie):
- 200g Hveiti eða heilhveiti
- 100g mjúkt smjör
- 1 tsk lyftiduft
- 1 egg
Þegar sætar bökur eru gerðar má nota sömu uppskrift og bæta við 75g af sykri og smá vanillusykri eða dropum. Ég mæli líka með að nota hvítt hveiti í sætar bökur en gróft eða blandað í matarbökur.
Aðferð
- Ég sker rótargrænmetið (blómkál, kartöflu, gulrætur) niður í hæfilega bita og sýð þá þar til mjúkir
- Á pönnu steiki ég restina af grænmetinu, stundum upp úr hvítlauksolíu og læt spínatið út á pönnuna í lokinn
- Allt sem fer í eggjahræruna er hrært saman í skál
- Bökudeigið geri ég oft í hrærivél en það má líka hnoða það saman í höndum
- Deiginu er svo þjappað ofan í smurt eldfast form og passað að það nái vel upp brúnirnar, hafið það ekki of þykkt
- Botninn er bakaður við 180°C í um 10 mín
- Botninn tekinn út og fylltur; fyrst fer steikta grænmetið síðan það soðna og loks eggjahræran yfir allt
- Bakið í um 30-40 mín eða þegar bakan er gullinbrún að ofan og eggin bökuð í gegn (hægt að halla kökunni til án þess að allt fari að leka)
Mér finnst gott að hafa Grænmetis- eða Hunangs-Sinnepssósu með og það passar líka að bera fram ferskt salat með bökunni.
Verði þér að góðu